Jónfrí & Co. kynnir lagið „Aprílmáni“

Strangheiðarlegur bíltúr í ljósaskiptunum

Jónfrí sendir frá sér lagið Aprílmáni föstudaginn 6. október. Er þetta önnur smáskífan af væntanlegri breiðskífu.

Fyrsta lag sveitarinnar, Andalúsía, vakti allskonar athygli. Lagið sat á toppi vinsældalista Rásar tvö í tvær vikur og var einnig vinsælt hjá plötusnúðum borgarinnar.

„Aprílmáni er hátíðlegur óður til þess að fara á rúntinn. Að púsla saman tilgangi allra hluta undir stýri á beinskiptum Fiat í ljósaskiptunum.”

Aprílmáni er bassatromma og blásið hár. Japanskir svuntuþeysar. Axlapúðar og glimmer. Lúmskur pönk leðurjakki. Grænn Seltzer og ærandi stemming af bestu gerð.

„Þegar við vorum að skapa hljóðheiminn horfðum við svoldið á níunda áratuginn eins og hlaðborð. Joy Division trommusándið, hljómborðin hennar Kate Bush og mátulega einfalt gítarriff til að tengja þessa heima saman. Fjórar nótur, ekkert vesen.“

Leggðu frá þér Bravo blaðið og finndu bíllyklana. Farðu á rúntinn. Finndu orkuna. Sólin lækkar og þú hækkar í græjunum. Lífið er ekki fullkomið en það fínt núna. Önnur bassakeilan er rifin en það skiptir ekki máli. Hækkaðu samt. Þú átt það skilið. 

Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar, sem er stemmningsmaður í Vesturbænum og plötusnúður á eftirlaunum. Hljómsveitina skipa auk Jóns; Birgir Hansen á bassa, Sölvi Steinn Jónsson á trommur og Sveinbjörn Hafsteinsson á gítar og hljómborð.

Sérstakar þakkir fá Tómas Jónsson og Kristinn Þór Óskarsson fyrir hljómborðs- og gítarspil, Magnús Øder sem hljóðblandaði og Glenn Schick fyrir masteringu.

Aprílmáni

Í skjóli nætur stelst ég út

Þarf að höggva þennan hnút

Og leita svara bara af því bara

Sjá blómin springa út

Blóðrauður aprílmáni

Hamingjan er hentisemisfáni

Blóðrauður aprílmáni

Hamingjan er hentisemisfáni

Fimm dyra Fiat Uno

Komdu aftur í á trúnó

Já nú er margt málum blandið

Og svo óráðið um alla framtíð

Blóðrauður aprílmáni

Hamingjan er hentisemisfáni

Blóðrauður aprílmáni

Hamingjan er hentisemisfáni

Blóðrauður aprílmáni

Hamingjan er hentisemisfáni

Blóðrauður aprílmáni

Hamingjan er hentisemisfáni