Jónfrí & Co. kynnir:
Ástarbréf til hins íslenska sumars

Tónlistarmaðurinn Jónfrí sendir frá sér lagið ‘Andalúsía’ föstudaginn 18. ágúst. B-hliðin ‘Sumarið er silungur’ fylgir með og eru þetta fyrstu lögin af væntanlegri breiðskífu. Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar, sem er grafískur hönnuður, pabbi í Vesturbænum og plötusnúður á eftirlaunum.




„Ég samdi Andalúsíu á kassagítar og var að reyna að færa í stílinn þessa ævarandi leit okkar að réttu stemningunni,“ segir Jónfrí um lagið Andalúsíu. „Við fundum svo frekar fljótt á hljómsveitaræfingum að við yrðum að klæða lagið í einhverskonar 70’s diskóbúning.”
Þetta er kærulaus tónlist um hversdagsleg málefni. Um sápukúludiskótek og sangríu. Um þjóðarsálina, íslenska sumarið og hina eilífu leit að réttu stemmningunni.

Lögin koma einnig út á gegnsærri tíu tommu vínylplötu sem er hönnuð af Bureu Breiðholt og fæst í Lucky Records.
„Sumarið er silungur er ástarbréf til hins íslenska sumars,“ segir Jónfrí. „Ástarbréf til Gamla Staðarskála, til grásleppukallanna og jójó-æðisins. Þegar sundlaugarnar fyllast, krakkar halda tombólur og þjóðin ærist yfir veðrinu.”

Plötusnúðar í miðborg Reykjavíkur hafa þegar fengið ‘Andalúsíu’ í hendurnar og hefur lagið hljómað á skemmtistöðum borgarinnar síðustu vikur.
Praktískar upplýsingar
Instagram - 8986020 - j@jonfri.is
Stutta útgáfan:
Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar sem er að gefa út lagið ‘Andalúsía’ föstudaginn 18. ágúst ásamt b-hliðinni ‘Sumarið er silungur’. Þetta eru fyrstu lögin af væntanlegri breiðskífu.
Lengri útgáfan:
Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar, sem syngur og spilar á gítar. Birgir Hansen spilar á bassa, Sölvi Steinn Jónsson á trommur og Sveinbjörn Hafsteinsson á hljómborð, raddir og önnur tilfallandi hljóðfæri. Sérstakar þakkir fá Tómas Jónsson, Reynir Snær Magnússon, Kristinn Þór Óskarsson og Rakel Sigurðardóttir fyrir sín framlög.
Lagið er kemur á streymisveitur föstudaginn 18. ágúst en er þegar komið út á tíu tommu vínylplötu í takmörkuðu upplagi ásamt b-hliðinni ‘Sumarið er silungur’.
Þetta eru fyrstu lögin af stærri plötu sem kemur út innan tíðar og inniheldur diskó, reggí, country og krúttlegt indí í akkúrat réttum skömmtum.
Magnús Árni Øder Kristinsson sá um hljóðblöndun á lögunum og Glenn Schick tónjafnaði.