Jónfrí & Co. kynnir:

Ástarbréf til hins íslenska sumars

Tónlistarmaðurinn Jónfrí sendir frá sér lagið ‘Andalúsía’ föstudaginn 18. ágúst. B-hliðin ‘Sumarið er silungur’ fylgir með og eru þetta fyrstu lögin af væntanlegri breiðskífu. Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar, sem er grafískur hönnuður, pabbi í Vesturbænum og plötusnúður á eftirlaunum.

„Ég samdi Andalúsíu á kassagítar og var að reyna að færa í stílinn þessa ævarandi leit okkar að réttu stemningunni,“ segir Jónfrí um lagið Andalúsíu. „Við fundum svo frekar fljótt á hljómsveitaræfingum að við yrðum að klæða lagið í einhverskonar 70’s diskóbúning.”

Þetta er kærulaus tónlist um hversdagsleg málefni. Um sápukúludiskótek og sangríu. Um þjóðarsálina, íslenska sumarið og hina eilífu leit að réttu stemmningunni.

10 tommu vínylplata kemur út samhliða útgáfunni

Lögin koma einnig út á gegnsærri tíu tommu vínylplötu sem er hönnuð af Bureu Breiðholt og fæst í Lucky Records.

„Sumarið er silungur er ástarbréf til hins íslenska sumars,“ segir Jónfrí. „Ástarbréf til Gamla Staðarskála, til grásleppukallanna og jójó-æðisins. Þegar sundlaugarnar fyllast, krakkar halda tombólur og þjóðin ærist yfir veðrinu.”

Plötusnúðar í miðborg Reykjavíkur hafa þegar fengið ‘Andalúsíu’ í hendurnar og hefur lagið hljómað á skemmtistöðum borgarinnar síðustu vikur.

Praktískar upplýsingar

Instagram - 8986020 - j@jonfri.is

Stutta útgáfan:

Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar sem er að gefa út lagið ‘Andalúsía’ föstudaginn 18. ágúst ásamt b-hliðinni ‘Sumarið er silungur’. Þetta eru fyrstu lögin af væntanlegri breiðskífu.

Lengri útgáfan:

Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar, sem syngur og spilar á gítar. Birgir Hansen spilar á bassa, Sölvi Steinn Jónsson á trommur og Sveinbjörn Hafsteinsson á hljómborð, raddir og önnur tilfallandi hljóðfæri. Sérstakar þakkir fá Tómas Jónsson, Reynir Snær Magnússon, Kristinn Þór Óskarsson og Rakel Sigurðardóttir fyrir sín framlög.

Lagið er kemur á streymisveitur föstudaginn 18. ágúst en er þegar komið út á tíu tommu vínylplötu í takmörkuðu upplagi ásamt b-hliðinni ‘Sumarið er silungur’.

Þetta eru fyrstu lögin af stærri plötu sem kemur út innan tíðar og inniheldur diskó, reggí, country og krúttlegt indí í akkúrat réttum skömmtum.

Magnús Árni Øder Kristinsson sá um hljóðblöndun á lögunum og Glenn Schick tónjafnaði.